Fara í efni
Til baka

Nerlerit Inaat
Grænland

Staðsetning

Nerlerit Inaat eða Constable Point flugvöllur er staðsettur á Austurströnd Grænlands, á Jameson landi við Scoresby-sund fjörð. Fjörðurinn er sá lengsti í heimi og nær um 350 km inn í landið þar sem hann er lengstur. Um 80 km norður af flugvellinum tekur Þjóðgarður Grænlands við, stærsti þjóðgarður heims, hann nær yfir allann norðausturhluta landsins og þekur nær helming landsins alls. Engum er heimilt að fara inn í þjóðgarðinn án tilskyldra leyfa frá stjórnvöldum. 

Næsta byggð við flugvöllinn er Ittoqqortoormiit, um 350 manna þorp staðsett á Liverpool Landi, norðan við mynni Scoresbysunds fjarðar, um 45km suðaustur af flugvellinum. Ittoqqortoormiit er eitt  afskekktasta þorp Grænlands. Air Greenland bíður uppá þyrluflug þangað i tengslum við flug Norlandair. Á sumrin er hægt að komast á milli með bát og á veturna með snjósleða, ef aðstæður leyfa.

Smærri þorp á svæðinu hafa lagst af, má t.d. nefna Kap Tobin (Uunarteq) og  Kap Hope (Itterajivit), en síðustu íbúarnir fluttu sig yfir til Ittoqqortoormitt fljótlega upp úr árinu 2000. Hluti húsanna í yfirgefnu þorpunum hefur verið viðhaldið og eru i dag nýtt sem sumarhús. 

Saga

Nerlerit Inaat/Constable Point flugvöllurinn var byggður árið 1985 af bandaríska olíufyrirtækinu ARCO í tengslum við olíuleit á svæðinu. Árið 1990 var flugvöllurinn síðan seldur Grænlandsstjórn. 

Auk þess að þjónusta heimamenn er flugvöllurinn fyrsti viðkomustaður flestra sem leggja leið sína til Norðaustur Grænlands en frá vori og fram á haust er talsverð umferð um völlinn. Svæðið er vinsælt meðal göngu- og skíðahópa, ljósmyndara, kvikmyndagerðamanna, o.fl. Einnig er fjöldinn allur af vísindamönnum, flestir á vegum danskra stofnana, sem leggja leið sína í þjóðgarðinn og stunda þar rannsóknir tengdar loftlagsmálum, dýralífi, o.fl. Einnig halda rannsóknir á vegum námufyrirtækja áfram þó vinnsla hafi legið niðri að mestu undanfarin ár.

Þorpið Ittoqqortoormiit (sem þýðir staðurinn með stóru húsunum) var stofnað árið 1925 þegar pólfarinn Ejnar Mikkelsen ásamt 80 inúítum, settust þar að, að tilskipun Danmerkur. Landnemarnir komu flestir frá Ammassalik auk þess sem nokkrir komu frá vestur Grænlandi. Ástæða flutningana var að hluta til sú að á þessum tíma voru Norðmenn farnir að sýna austur Grænlandi áhuga. Þeir vildu meina að Danmörk hafði einungis tilkall til þeirra svæða á Grænlandi sem væru í byggð og þótti því tilvalið að stofna þorp í um 850 km norður af næstu byggð í Ammassalik. Önnur ástæða búferlaflutningana var að lífskilyrði höfðu versnað á Ammassalik svæðinu vegna fólksfjölgunar og minnkandi veiði. Landnemarnir aðlöguðust aðstæðum fljótt á nýjum stað, veiðisvæði kringum þorpið reyndust mjög góð, mikið af sel, rostungum, náhvölum og ísbjörnum.

Íbúar Ittoqqortoormit voru um 550 þegar best lét en hefur nú fækkað niður i um 350.

Afþreying

Á Nerlerit Inaat er engin byggð, aðeins flugvöllur, og því engin þjónusta nema sem tengist flugvellinum, en þar er þó gistirými með möguleika á máltíðum ef á þarf að halda.

Nanu Travel sem staðsett er í Ittoqqortoormiit bíður uppá ýmsar spennandi ferðir, t.d hundasleðaferðir, siglingar, veiði-, og gönguferðir: http://www.nanutravel.dk.  Í þorpinu er gistiheimili, safn, gjafavöruverslun og veitingahús (sem er þó með takmarkaðan opnunartíma).

Í þessu litla þorpi er öll grunnþjónusta, t.d. leik- og barnaskóli, íþróttahús, sjúkrahús/heilsugæsla, hjúkrunarheimili, íþróttamiðstöð, kirkja og pósthús. Þar er verslun með nauðsynjavöru, matvöru, heimilisvöru, fatnaði o.fl. Þegar líður á veturinn en vöruúrval takmarkað en rætist úr þegar fyrsta skip sumarsins kemur - vanalega í júlí. Yfir vetramánuðina er ferskvara flutt inn frá Íslandi með Norlandair.

Fyrst og fremst er það stórkostleg náttúran sem lætur engan ósnortin, einnig er einstakt að upplifa kyrrðina og einfalda lifnaðarhætti í þessu fámenna veiðimannasamfélagi sem er eitt einangraðasta samfélag veraldar. Litrík þorpin njóta sín i hráu en jafnframt fallegu umhverfi, ekki síst yfir vetrartímann. Fólkið í Ittoqqorttoormit er vinalegt, stolt af sínum heimaslóðum og tekur fagnandi á móti ferðafólki.

Flug

Norlandair sinnir áætlunarflugi til Nerlerit Inaat tvisvar í viku. Annars vegar frá Reykjavík og hinsvegar frá Akureyri. Nánari upplýsingar má finna í flugáætlun(linkur).

 

Akureyri - Nerlerit Inaat (CNP) - Akureyri

Tímabil Dagur Brottför AEY Lending CNP Brottför CNP Lending AEY
1.maí 2024 - 30.sep 2024 Mán 12.30 14:00 14:40 16:50

Reykjavík - Nerlerit Inaat (CNP) - Akureyri

Tímabil Dagur Brottför AEY Lending CNP Brottför CNP Lending AEY
1.maí 2024 - 30.jún 2024 Fim 12:30 14:15 14:45 16:30
1.júl 2024 - 30.sep 2024 Fim 12:00 13:45 14:30 16:15